mánudagur, maí 29, 2006

Svo er ég að rembast eins og rjúpan við staurinn að komast í hjúkrunnar námið...

Samantekt Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) vegna samnings Landspítala háskólasjúkrahúss (LSH) við starfsmannaleigu um komu danskra hjúkrunarfræðinga á LSH.


Á upplýsingavef Landspítala háskólasjúkrahúss birtist þann 18. maí sl. frétt þess efnis að áætlað væri að 20 danskir hjúkrunarfræðingar kæmu til LSH í júní mánuði til sumarafleysinga. Samið er við danskt fyrirtæki um kaup á þessari hjúkrunarþjónustu. Í fréttinni kemur fram að hinir dönsku hjúkrunarfræðingar hafi 2-5 ára starfsreynslu í bráða- og gjörgæsluhjúkrun.

Mannekla í hjúkrun hefur verið viðvarandi hér á landi til fjölda ára og allt útlit fyrir vaxandi skort á hjúkrunarfræðingum ef ekkert verður að gert. Fram hefur komið í fréttum að um 100 hjúkrunarfræðinga vantar nú á LSH. Árið 2005 hættu 113 hjúkrunarfræðingar á LSH skv. ársskýrslu spítalans. Erfiðlega hefur gengið að manna stöður hjúkrunarfræðinga vegna sumarleyfa. Yfirstjórn LSH grípur nú til þeirra úrræða að fá til starfa erlenda hjúkrunarfræðinga í gegnum danska starfsmannaleigu.

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga leggur áherslu á að hjúkrunarfræðingum sé gert kleift að taka sumarleyfi skv. kjarasamningi enda álag mikið á spítalanum og hvíld nauðsynleg. Fíh gerir hins vegar alvarlegar athugasemdir við að hinir dönsku hjúkrunarfræðingar sem munu koma til starfa á vegum dönsku starfsmannaleigunnar muni fá um 60% hærri laun en íslenskir hjúkrunarfræðingar skv. meðfylgjandi útreikningum Fíh. Til viðbótar njóta hinir dönsku hjúkrunarfræðingar verulegra fríðinda sem íslenskum hjúkrunarfræðingum eru ekki boðin. Eins og fram kemur í meðfylgjandi auglýsingu er þar um að ræða fríar ferðir, frítt húsnæði og vikulegar skemmtiferðir. Ljóst er að LSH mun bera kostnaðinn af fríðindunum auk greiðslu þóknunar til starfsmannaleigunnar.

Hinn 28. apríl sl. skrifaði Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga undir stofnanasamning við LSH. Í þeim samningi er kveðið á um launasetningu hjúkrunarfræðinga. Greitt verður eftir þessum samningi í fyrsta sinn 30. maí næstkomandi. Fíh telur ólíðandi fyrir félagsmenn sína að á sama tíma og samið er við íslenska hjúkrunarfræðinga um 3,8% meðaltalshækkun í stofnanasamningi sé dönskum hjúkrunarfræðingum greidd um 60% hærri laun fyrir störf á LSH.

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga krefst þess að íslenskum hjúkrunarfræðingum verði greidd sömu laun og dönsku hjúkrunarfræðingum á þeim álagstíma sem framundan er á LSH.

0 vinir:

 
template by suckmylolly.com flower brushes by gvalkyrie.deviantart.com